Heyrnartæki
Heyrnartæki eru til í mismunandi gerðum og útfærslum, hafa fjölbreytt úrvali aðgerða til að takast á við mismunandi þarfir einstaklinga. Heyrnartæki í dag eru í raun litlar tölvur, sem eru í stöðugri framþróun í þá átt að veita betri náttúrulega endurmyndun á heyrn mannsins.
Sú stöðuga framþróun sem verið hefur við framleiðslu á heyrnartækjum hefur verulega bætt getu tækjanna til að endurskapa og vinna úr hljóðupplýsingum. Möguleikinn á að stilla tækin að persónulegum þörfum hvers og eins með tilliti til heyrnarskerðingar, umhverfisaðstæðna og persónulegra þarfa er stöðugt að verða betri.
Heyrnartækjum er skipt í tvo meginflokka:
„Bak við eyra“ heyrnartækin koma í tveimur útfærslum;
- Heyrnartæki þar sem hátalarinn er staðsettur inni í hlustinni. Þessi tæki eru lítil, létt og þægileg að bera.
- Hefðbundin heyrnartæki þar sem allur tæknibúnaðurinn er í skel sem situr bak við eyrað og hljóðið er sent í gegnum plastslöngu í sérsmíðað hlustarstykki sem situr í eyranu.
„Inn í eyra“ heyrnartækin eru sérsmíðuð eftir eyrum viðkomandi og er hægt að fá í mismunandi útfærslum, allt eftir þörfum viðkomandi;
- Inni í eyra.
- Inni í hlustinni.
- Alveg inni í hlustinni.
Hvaða heyrnartæki á að velja?
Mikilvægast er að heyrnartækin ráði við að bæta upp heyrnarskerðingu viðkomandi. Tækin þurfa líka að ná að uppfylla þarfir viðkomandi þegar kemur að hlustunarskilyrðum. Oft kaupa einstaklingar dýr og flókin tæki og nýta síðan ekki nema lítinn hluta þess sem tækin hafa upp á að bjóða. Mikilvægt er að ráðfæra sig við heyrnarfræðing til að framkvæma þarfagreiningu á því hvaða tæki henta best.
Heyrnartæki veita einstaklingum með heyrnarskerðingu betri heyrn, bætta talgreiningu og aukna skynjun á öðrum hljóðum. Heyrnartæki geta hins vegar ekki gert heyrnina eins og hún var.