Hljóðóþol – hyperacusis

Hljóðóþol er tiltölulega sjaldgæf heyrnarröskun, þar sem hljóð sem aðrir skynja sem eðlilegt, þ.e. á viðeigandi hljóðstyrk, er óþægilega, oft óþolandi hátt í þeirra eyrum.

Einstaklingar með eðlilega heyrn upplifa hljóð á mismiklum hljóðstyrk. Aftur á móti upplifa einstaklingar með hljóðóþol, flest hljóð almennt með of háan hljóðstyrk.

Dæmi um hljóð í daglegu lífi, sem einstaklingum með hljóðóþol kunna að finnast óþægileg eru:

  • Fólk að spjalla.
  • Bílvél í gangi.
  • Rennandi vatn.
  • Heimilisraftæki í gangi.
  • Einhver að fletta blaðsíðum í bók eða dagblaði.

Hljóðóþol getur haft neikvæð áhrif á geðheilsu, valdið pirringi og kvíða. Það getur líka haft neikvæð áhrif á félagslíf einstaklings. Sumir einstaklingar með hljóðóþol forðast félagslegar aðstæður til að draga úr hættu á að upplifa mikinn hávaða.

Hljóðóþol er oft fylgifiskur eyrnasuðs (tinnitus), ástandi sem tengist oft heyrnarskerðingu. Heyrnarskerðing og/eða eyrnasuð eru samt sem áður ekki alltaf til staðar hjá einstaklingum með hljóðóþol.

Erfitt er að segja til um algengi einstaklinga með hljóðóþol í samfélaginu. Einstaklingar með hljóðóþol lýsa einkennum sínum á mismunandi hátt út frá persónulegri reynslu. Einnig er ekki til ein almenn viðurkennd leið til að skima fyrir eða mæla hljóðóþol.

Vísindamenn áætla að 3 til 17% barna og ungmenna séu með hljóðóþol, á meðan tíðnin hjá fullorðnum er á bilinu 8 til 15%.

EINKENNI

Einstaklingar með hljóðóþol geta upplifað hljóð sem öðrum finnast eðlileg sem óþægileg, sársaukafull eða jafnvel óttavaldandi. Hljóð geta farið frá því að vera létt pirrandi upp í að valda jafnvægisleysi eða jafnvel krampa.

Önnur einkenni geta verið:

  • Eyrnasuð.
  • Eyrnaverkur.
  • Lokunartilfinning eða þrýstingur í eyrunum.

Einkennin geta haft neikvæð áhrif á andlega heilsu og félagslíf einstaklinga. Stöðugt mikið og óþægilegt hljóðáreiti getur leitt af sér:

  • Kvíða.
  • Þunglyndi.
  • Erfiðleika í sambandi/sambúð.
  • Félagslega einangrun.

Einkennin geta magnast við streitu eða þreytu eða ef viðkomandi sér fram á að þurfa að hafast við í rými sem hann óttast að verði óþægilega hávært.

ORSAKIR

Læknavísindin eru enn að reyna að komast að því, hvað veldur hljóðóþoli. Líklegt er talið að stöðvar í heilanum sem skynja og stjórna örvun valdi því að viðkomandi upplifi hljóð á hærri hljóðstyrk en þau eru. Við hljóðóþol skynjar heilinn hljóð sem hávær, óháð tíðni þeirra, hvort sem hljóðið er á lágtíðnisviði (líkt og þrumur), á miðtíðnisviði (eins og tal) eða á hátíðnisviði (eins og sírenur eða flautur).

Ýmsar kenningar eru til varðandi hvað veldur hljóðóþoli. Ein er sú að um sé að ræða skaða á hlutum heyrnartaugarinnar, en heyrnartaugin flytur boð frá innra eyra til heilans. Önnur kenning er sú að skaði á andlitstauginni valdi hljóðóþoli. Andlitstaugin stjórnar ístaðsvöðvanum í miðeyranu, sem hefur áhrif á hljóðstyrk eyrans. Margir sjúkdómar sem tengist hljóðóþoli eins og Bell’s lömun, Ramsay Hunt heilkenni og Lyme-sjúkdómur, fela í sér skaða á andlitstaug.

Þótt orsakir hljóðóbeitar séu óþekktar þá virðist sem ákveðnir þættir hafi áhrif. Má þar nefna:

  • Langvarandi viðvera í hávaðasömu umhverfi: Hljóðóþol er algengara hjá einstaklingum sem hlusta í langan tíma á háværa tónlist eða vinna í háværum aðstæðum.
  • Skyndilegur hávaði: Einstaklingar geta fengið hljóðóþol eftir að hafa orðið fyrir skyndilegum hávaða, líkt og byssuskotshvelli eða flugeldum.

Hljóðóþol fylgir oft vissum einkennum líkt og eyrnasuði (allt að 86% einstaklinga) og Williams heilkenni (allt að 90% einstaklinga). Næstum helmingur þeirra sem greinast með hljóðóþol er einnig með hegðunartengd vandamál (behavioral health condition) eins og kvíða.

Sjúkdómar/heilkenni sem geta tengst hljóðóþoli eru meðal annars:

  • Kvíði.
  • Einhverfa.
  • Bell’s lömun.
  • Þunglyndi.
  • Downs heilkenni.
  • Eyrnabólgur (miðeyrnabólga).
  • Höfuðáverkar.
  • Lyme-sjúkdómur.
  • Völundarsvimi (Ménière-sjúkdómur).
  • Mígreni.
  • Áfallastreituröskun (PTSD).
  • Ramsay Hunt heilkenni.
  • Efri gangna opnun (Superior Canal Dehiscence Syndrome).
  • Truflun eða röskun á virkni kjálkaliða (TMJ).
  • Eyrnasuð.
  • Williams heilkenni.

Hljóðóþol getur komið í kjölfar aðgerðar eða sem fylgikvilli við lyfjatöku.

GREINING

Það getur verið erfitt að fá greiningu á hljóðóþoli þar sem ekki allir heilbrigðisstarfsmenn hafa þekkingu og reynslu af að vinna með hljóðóþol. Best er að leita til háls-, nef- og eyrnasérfræðings og/eða heyrnarfræðings til að fá aðstoð við að bera kennsl á einkennin.

Greining á hljóðóþoli getur falið í sér:

  • Sjúkrasögu: Lögð er áhersla á áhættuþætti eins og geðraskanir (kvíði og þunglyndi), hegðunarvandamál, útsetningu fyrir háum hljóðum og heyrnarskemmdir.
  • Próf: Eyrnaskoðun þar sem hlutar eyrans eru skoðaðir til að sjá hvort það séu einhver frávik sem gætu tengst hljóðóþolinu. Hreyfing hljóðhimnunnar er skoðuð. Heilataugar eru rannsakaðar til að sjá hvort að andlitstaugin virki eðlilega.
  • Heyrnargreining: Heyrnin er mæld til að greina hvort heyrnarskerðing sé til staðar. Einnig er gerð mæling á óþægindamörkum fyrir hljóðum. Spurningalistar eru notaðir til að meta alvarleika hljóðóþolsins og hversu mikil áhrifin eru á daglegt líf viðkomandi.

Myndgreining getur verið nauðsynleg ef grunur er um að hljóðóþolið tengist vanvirkni í starfsemi heilans eins og lömun í andlitstaug. Blóðprufur gætu einnig verið nauðsynlegar til frekari greiningar ef grunur er um undirliggjandi sjúkdóm.

MEÐFERÐ

Engin ein stöðluð meðferð er til við hljóðóþoli. Þess í stað felast meðferðir venjulega í að draga úr líkamlegum einkennum og kenna viðbragðsaðferðir til að takast á við andlega streitu og álag vegna hljóðóþols. Meðferðir eru meðal annars:

  • Hljóðmeðferð: Markmiðið er að útsetja heyrnarkerfið hægt og örugglega fyrir sífellt sterkari hljóðum þar til hljóðupplifunin verður viðráðanleg. Í upphafi meðferðar eru hljóðgjafar stilltir á lágum og þægilegum styrk og síðan er styrkurinn aukinn smám saman þar til viðkomandi venst því að hlusta á hærri hljóð.
  • Hugræn atferlismeðferð, HAM (Cognitive Behavioral Therapy): Þessi meðferð stuðlar að því að hjálpa viðkomandi að takast á við streitu og neikvæðar tilfinningar sem tengjast háværum hljóðum. Meðferðin dregur úr ótta og kvíða sem tengist hljóðóþoli. Rannsóknir hafa sýnt að HAM hefur jákvæð áhrif á óþægindamörk (Loudness Discomfort Level) hjá einstaklingum með hljóðóþol.
  • Endurhæfingarmeðferð við eyrnasuði (Tinnitus Retraining Therapy): Þessi endurhæfingarmeðferð er oftast notuð við meðferð á eyrnasuði, en getur einnig nýst við meðferð á hljóðóþoli. Meðferðin samanstendur af fræðslu og hljóðmeðferð. Viðkomandi hlustar á róandi hljóð sem er samsett úr fjölda tíðna á lágum hljóðstyrk. Hljóðið býr til róandi, fyrirsjáanlegt hljóðumhverfi þannig að hávaði sem viðkomandi gæti annars upplifað sem ógnandi er ekki eins óþægilegur.
  • Skurðaðgerð: Í vissum tilfellum er framkvæmd aðgerð sem miðar að því að styrkja hringlaga og sporöskjulaga gluggana í eyranu til að bregðast við hljóðóþoli sem tengist andlitstaugalömun.

ER HÆGT AÐ LÆKNA HLJÓÐÓÞOL?

Það er ekki til lækning við hljóðóþoli, en eftir því hvað veldur, geta einkennin batnað með tímanum. Til dæmis getur hljóðóþol eftir aðgerð horfið þegar einstaklingar hefa náð sér eftir aðgerðina. Einstaklingar með völundarsvima (Ménière-sjúkdóm) gætu tekið eftir framförum þegar sjúkdómurinn er í dvala.

BATAHORFUR

Heilbrigðisstarfsmenn og vísindamenn eru enn að rannsaka langtímaáhrif hljóðóþols. Hjá mörgum er hljóðóþol langvarandi ástand sem menn læra að hafa stjórn á með meðferð. Aðrir finna fyrir minni einkennum eftir aðgerð eða þegar undirliggjandi ástand leysist.

AÐ LEITA AÐSTOÐAR

Að reyna að stjórna einkennum hljóðóþols á eigin spýtur er ekki talið líklegt til árangurs. Sumir reyna að skerma hljóð með “Noise-Canceling” heyrnartólum eða eyrnatöppum en það gæti gert einkennin verri þegar til lengri tíma er litið. Í staðinn er æskilegt að viðkomandi leiti til læknis ef einkenni hljóðóþols eru til staðar. Það getur tekið smá tíma að finna hvað er líklegt til að valda vandanum, en í flestum tilfellum eru til meðferðir sem geta hjálpað. Sem dæmi þá hafa hljóðmeðferð og HAM hjálpað fólki með hljóðóþol að takast á við einkenni sín.

ER HLJÓÐÓÞOL GEÐSJÚKDÓMUR?

Hljóðóþol er ekki geðsjúkdómur. Hljóðóþol er heyrnarröskun sem oft tengist geðröskunum, þar með talið kvíða og þunglyndi. Að lifa með óeðlilega næmni fyrir hljóðum getur haft neikvæð áhrif á andlega heilsu. Kvíði yfir því að lenda í hljóðmiklum aðstæðum og heyrnarvarnir til að hlífa heyrninni, geta gert einkenni hljóðóþols verri.

SENDA FYRIRSPURN

Athugið að ekki er um að ræða bókanir hjá háls-, nef- og eyrnalækni.