Hljóðóbeit – misophonia

Hljóðóbeit er röskun sem lýsir sér í skertu þoli fyrir ákveðnum hljóðum og hlutum þeim tengdum. Þótt að hljóðóbeit hafi ekki enn fengið opinbera skilgreiningu sem röskun, þá er hún samt sem áður vel þekkt. Til er formleg lýsing og skilgreining á hljóðóbeit sem notuð er í rannsóknarskyni og við greiningu og meðferð á henni.

Einstaklingar með hljóðóbeit upplifa ákveðin hljóð sem mjög pirrandi áreiti ásamt því að upplifa oft kvíða og jafnvel reiði. Upplifunin getur verið mjög sterk, jafnvel yfirþyrmandi og erfitt getur verið að hafa stjórn á þeim tilfinningum sem upplifunin framkallar.

Áhrif hljóðóbeitar á einstaklinga eru mjög persónubundin. Sumir hafa aðeins eitt svo kallað kveikjuhljóð „Trigger Sound“ sem veldur hljóðóbeit, aðrir hafa mörg kveikjuhljóð. Viðbrögðin við þessum hljóðum geta verið mjög alvarleg. Sumir geta ekki stjórnað tilfinningunum sem fylgja í kjölfar hljóðóbeitar en ná að hafa stjórn á viðbrögðunum. Aðrir geta hvorki stjórnað tilfinningunum né viðbrögðunum og geta þá í sumum tilvikum brugðist mjög harkalega við. Í alvarlegustu tilfellunum getur hljóðóbeit hindrað fólk í að gera ákveðna hluti eða að hafast við í ákveðnu umhverfi.

Þótt allir geti upplifað hljóðóbeit þá benda rannsóknir til þess að u.þ.b. einn af hverjum fimm upplifi hljóðóbeit einhvern tímann á lífsleiðinni. Jafnframt benda rannsóknir til að hljóðóbeit sé algengari röskun hjá konum en körlum og að hún sé líklegri til að koma fram á unglingsárunum. Fleiri rannsóknir eru nauðsynlegar til að kanna hvort aðrir þættir geti haft áhrif, og þá sömuleiðis hvaða einstaklingar eru líklegastir til að þróa með sér hljóðóbeit.

EINKENNI

Einkenni hljóðóbeitar ráðast oft af viðbrögðum einstaklingsins við kveikjuhljóðum viðkomandi, en virðast öll falla undir „flótta- eða árásarviðbragð“ (Fight-or-Flight) hjá einstaklingnum.

Einkenni hljóðóbeitar geta verið misalvarleg. Þegar einkennin eru væg þá geta tilfinningaleg- og líkamleg viðbrögð verið einu viðbrögðin sem viðkomandi upplifir. Ef einkennin eru alvarlegri þá geta áhrifin verið það sterk að þau framkalli hegðunarviðbrögð til viðbótar.

Í mjög alvarlegum tilfellum geta sjálfsprottin viðbrögð einstaklingsins verið það sterk, annaðhvort með orðum eða athöfnum eða jafnvel bæði, að hann valdi uppnámi í umhverfi sínu með viðbrögðunum. Við slíkar aðstæður er algengt að einstaklingur með hljóðóbeit viðurkenni að viðbrögðin hafi verið of harkaleg og iðrist viðbragða sinna. Hann getur samt sem áður átt í erfiðleikum með að stjórna svipuðum viðbrögðum í framtíðinni.

VIÐBRÖGÐ VIÐ HLJÓÐÓBEIT

Tilfinningar sem einstaklingar finna fyrir við hljóðóbeit geta verið sterkar og yfirþyrmandi. Hjá mörgum magnast tilfinningarnar hratt, rétt eins og stigið sé á „tilfinningarbensíngjöfina“ af fullu afli. Þetta getur orðið til þess að pirringur og gremja breytist fljótt yfir í ofsaviðbrögð eða reiði.

Dæmi um tilfinningaleg viðbrögð:

  • Reiði.
  • Kvíði.
  • Klígja.
  • Ótti.
  • Pirringur.

Ósjálfráð sjálfsverjandi viðbrögð sem svipar til viðbragða hjá þeim sem finna sig í hættulegum eða ógnvekjandi aðstæðum.

Dæmi um líkamleg viðbrögð:

  • Blóðþrýstingur hækkar.
  • Þrýstingur eða þyngsli fyrir brjósti.
  • Gæsahúð.
  • Aukinn hjartsláttur.

Athafnir sem framkallast sem viðbragð við kveikjuhljóðum. Viðbrögðin eru venjulega hvata- og/eða eðlishvatardrifin. Það þýðir að viðkomandi hefur ekki alltaf fulla stjórn á þeim. Ofbeldisfull viðbrögð gagnvart einstaklingum eða hlutum, eru möguleg en þó ekki algeng.

Dæmi um hegðunartengd viðbrögð:

  • Að forðast aðstæður þar sem „kveikjuhljóð“ geta átt sér stað.
  • Að yfirgefa aðstæður þegar kveikjuhljóð kemur.
  • Orð- eða raddviðbrögð, eins og að tala eða öskra á þann eða það sem gaf frá sér hljóðið.
  • Viðeigandi aðgerðir til að stöðva hljóðið.
  • Ofbeldisfullar aðgerðir til að stöðva hljóðið (sjaldgæft).

Öll hljóð geta verið kveikjuhljóð „Trigger Sounds“ og kallað fram hljóðóbeit, en sum hljóð eru þó mun líklegri til þess en önnur. Ekki er óalgengt að hljóð í sjónvarpi, útvarpi eða öðrum raftækjum komi af stað eða kalli fram hljóðóbeit. Viðbrögðin þurfa samt ekki að vera alvarleg ef þau eru í nokkurri fjarlægð frá viðkomandi.

DÆMI UM KVEIKJUHLJÓÐ

  • Einhver smjattar, tyggur mat eða tyggjó (sérstaklega með opinn munn), bryður mat, sötrar, gefur frá sér hávær kyngingarhljóð eða gúlpar í sig mat (gleypingarhljóð).
  • Einhver hrýtur, sýgur upp í nefið/snýtir sér eða andar þungt.
  • Einhver smellir, tappar niður fingrum, tappar niður fótum, smellir á penna, slær fast á lyklaborð eða framkallar hljóð við borðhald s.s diskahljóð og hnífaparahljóð.
  • Einhver ræskir sig, hreinsar hálsinn, hóstar eða framkallar háværan koss.
  • Það heyrist tikk (úr eða klukka), pípulagnahljóð (klósettskolun eða vatn sem drýpur), hringingar (bjalla eða sími), dýrahljóð eða skrjáf (pappír eða plast).

ORSAKIR

Ekki er vitað með vissu hvað veldur hljóðóbeit. Tilgátur eru um að hún geti verið sambland af mismunandi þáttum. Mögulegir orsakaþættir eru:

  • Breytingar í líffræði heila og heilastarfsemi.
  • Fjölskyldusaga eða erfðafræðilegir þættir.
  • Munur á uppbyggingu heila.

Rannsóknir sýna að einstaklingar með hljóðóbeit eru líklegri til að hafa frávik í uppbyggingu og starfsemi heilans. Eitt af þessu er að það eru meiri tengingar og virkni í og á milli ákveðinna svæða heilans. Svæðin í heilanum sem þetta á við stjórna því hvernig einstaklingur vinnur úr hljóðum og stýra tilfinningalegum viðbrögðum við hljóðunum.

Heyrn og tilfinningar eru hluti af innbyggðu sjálfsverndarkerfi líkamans. Þess vegna finna einstaklingar fyrir og tengja tilfinningar eins og reiði, viðbjóð og ótta við ógnandi aðstæður.

Hljóðóbeit er ekki ósvipuð því og að kveikja á útvarpi sem skilið var eftir á hámarks hljóðstyrk. Skyndilegur hávaði fær viðkomandi til að bregðast ósjálfrátt við til að láta hljóðið hverfa. Á sama hátt getur hljóðóbeit ósjálfrátt, og fyrir mistök sett viðkomandi aðila í „flótta- eða árásarviðbragðar“ (Fight-or-Flight) ástand. Þetta leiðir til tilfinningalegra, líkamlegra og hegðunarviðbragða.

Hljóðóbeit er líklegri til að eiga sér stað hjá fólki með ákveðna sjúkdóma eins og tauga-, geðheilbrigðis- og heyrnartengda sjúkdóma.

Dæmi um taugasjúkdóma og aðra heilasjúkdóma:

  • Athyglisbrestur/ofvirkniröskun (ADHD).
  • Einhverfurófsröskun.
  • Tourette heilkenni.

Dæmi um geðsjúkdóma:

  • Alvarlegt þunglyndi (MDD).
  • Þráhyggjuárátturöskun (OCD).
  • Áfallastreituröskun (PTSD).
  • Jaðarpersónuleikaröskun (BPD).

Dæmi um heyrnartengt ástand eða einkenni:

  • Heyrnarskerðing.
  • Eyrnasuð (Tinnitus).
  • Hljóðóþol (Hyperacusis).

Hljóðóbeit með væg einkenni veldur oftast minniháttar áhyggjum. Einkennin eru viðráðanleg og þó að viðkomandi geti fundið fyrir miklum tilfinninga- og líkamlegum viðbrögðum getur hann stjórnað þeim fljótt og náð stjórn á tilfinningum sínum.

Í alvarlegri tilfellum geta bæði tilfinningaleg- og líkamleg viðbrögð verið sterk. Það getur verið mjög erfitt, ef ekki ómögulegt að hafa stjórn á „flótta- eða árásarviðbragði“ (Fight-or-Flight), viðkomandi bregst við án umhugsunar. Viðbragðið getur orðið ofbeldisfullt í orði eða líkamlega, gagnvart því eða þeim aðila sem gefur frá sér kveikjuhljóðið.

Einstaklingar með alvarlega hljóðóbeit geta fundið fyrir ótta eða kvíða vegna möguleikans á að heyra kveikjuhljóð. Þessar tilfinningar geta stundum verið nógu sterkar til að hafa áhrif á daglegar venjur eða athafnir.

Heilinn er þannig byggður að hann myndar og styrkir tengingar sem geta hjálpað viðkomandi að vernda sig. Því geta viðbrögðin gagnvart kveikjuhljóðunum versnað með tímanum, og viðkomandi getur uppgötvað eða þróað viðbrögð við nýjum kveikjuhljóðum.

Hljóðóbeit er algengari hjá einstaklingum með þráhyggju- og áráttueinkenni en uppfylla ekki að fullu skilyrði fyrir formlega þráhyggjuárátturöskun (OCD) greiningu. Tæplega 24% einstaklinga með framangreind einkenni hafa einnig hljóðóbeit.

Vísbendingar eru um að hljóðóbeit geti legið í ættum. Talið er að minnsta kosti ein erfðafræðileg stökkbreyting gegni þar hlutverki. Hinsvegar eru frekari rannsóknir nauðsynlegar til að ákvarða hvort þetta sé rétt.

GREINING

Árið 2022 setti sérfræðinefnd á vegum Bandaríska geðlæknafélagsins fram sameiginlega skilgreiningu á hljóðóbeit fyrir rannsóknir, greiningu og meðferð. Fagmanneskja getur borið kennsl á algengustu einkenni hljóðóbeitar með því að spyrja viðkomandi spurninga um upplifun hans á hljóðum. Hins vegar er það ekki það sama og formleg greining.

MEÐFERÐ

Þótt að hljóðóbeit sé ekki opinberlega viðurkennt heilbrigðisástand, þýðir það ekki að einkenni hennar sé ekki hægt að meðhöndla. Líkindi og tengsl milli hljóðóbeitar og annarra sjúkdóma eins og kvíða, þráhyggjuröskunar (OCD) eða áfallastreituröskunar (PTSD), benda til þess að einstaklingar með hljóðóbeit geti notið góðs af ýmiss konar geðheilbrigðismeðferðum. Má í því sambandi nefna:

  • Að bera kennsl á það sem kallar fram hljóðóbeitina.
  • Að finna leiðir til að lágmarka eða koma í veg fyrir kveikjuhljóð.
  • Þróa aðgerðir og aðferðir (Coping Strategies) til að koma í veg fyrir hvatvís sjálfsprottin viðbrögð við kveikjuhljóðum.
  • Draga úr næmni fyrir núverandi kveikjuhljóðum.

Heilbrigðisstarfsmaður/fagaðili er besti aðilinn til að meta hvort meðhöndlun tengdra sjúkdóma geti hjálpað og hvaða meðferðum er mælt með.

Einstaklingar með hljóðóbeit, geta aðlagað sig að eða stjórnað eigin ásandi með því að nýta búnað, tækni eða mismunandi aðlögunaraðferðir.

Nokkur dæmi eru:

  • Eyrnatappar eða hávaðadeyfandi (noise-canceling) heyrnartól/eyrnatól.
  • Að hlusta á eitthvað til að halda heyrnartengdum ferlum heilans einbeittum að einhverju öðru en að hlusta eftir kveikjuhljóðum.
  • Hljóðgjafar (sérstaklega hvítt, bleikt eða brúnt meðferðarhljóð).

Það getur skipt miklu máli að gera breytingar á vinnuaðstæðum sé starfsmaður með hljóðóbeit. Vinnuveitandi getur til dæmis útvegað heyrnartól eða gert breytingar á vinnufyrirkomulagi sem getur hjálpað við að draga úr kveikjuhljóðum og draga þannig úr áhrifum sem þau geta valdið. Fagaðilar geta hugsanlega útvegað eða bent á úrræði til að aðlaga vinnuaðstæður.

BATAHORFUR

Hljóðóbeit er ekki hættulegt eða lífshættulegt ástand. Hins vegar getur hljóðóbeit haft neikvæð áhrif á andlega heilsu, sambönd og vellíðan fólks. Einstaklingar með hljóðóbeit hafa oft aðra geðsjúkdóma. Sérsniðin meðferð getur hjálpað til við að læra að takast á við og aðlagast hljóðóbeitinni.

Frekari rannsóknir eru nauðsynlegar áður en sérfræðingar geta komið fram með bestu leiðirnar til að meðhöndla hljóðóbeit og hvað viðkomandi getur gert til að bæta lífsgæði sín.

AÐ LEITA AÐSTOÐAR

Hljóðóbeit getur verið óþægileg eða pirrandi en er oft ekki nógu alvarleg til að trufla daglegt líf og athafnir (félagslega eða vinnulega). En ef svo er, ætti viðkomandi að leita sér aðstoðar. Fagaðili getur veitt fræðslu um hljóðóbeit og aðstoðað við að finna réttan sérfræðing sem getur hjálpað.

Einstaklingar með alvarlega hljóðóbeit, sérstaklega þeir sem eru með aðra geðsjúkdóma sömuleiðis, geta verið í meiri hættu á sjálfsskaða eða sjálfsvígshugsunum og hegðun. Hafi viðkomandi þannig hugsanir ætti hann að leita sér aðstoðar.

Til að fá aðstoð við aðkallandi aðstæður er hægt að hringja  í eftirfarandi:

  • 112 (eða númer neyðarþjónustu á staðnum): Hringja í 112 ef einhver virðist vera í hættu á sjálfsskaða eða sjálfsvígi. Þjónustuaðilar hjá 112 geta oft aðstoðað fólk í bráðri hættu vegna alvarlegrar andlegrar kreppu og sent fyrstu viðbragðsaðila til aðstoðar.
  • Pieta samtökin: Þessi lína getur hjálpað fólki sem glímir við sjálfsvígshugsanir eða hvatir, símanúmerið er 552 2218.
  • Staðbundin neyðarnúmer: Geðheilbrigðisstofnanir og miðstöðvar á svæðinu geta boðið úrræði og hjálp í gegnum neyðarnúmer ef einhver er að glíma við sjálfsvígshugsanir, sjálfsskaða eða hugsanlega á leið með að skaða aðra.
    • Bráðamóttaka geðþjónustu Landspítalans: sími: 543 4050
    • Geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri: sími: 463 0202

Hljóðóbeit er ástand sem getur verið áhyggjuefni og sum hljóðin sem kalla það fram eru svo algeng að viðkomandi gæti liðið eins og að hann eigi enga undankomuleið undan þeim.

Þótt að fleiri rannsókna sé þörf til að þróa leiðir til að greina og meðhöndla hljóðóbeit, þá geta sumir meðferðarmöguleikar við skyldum sjúkdómum hjálpað. Einnig er hægt að læra aðferðir til að stjórna ástandinu og takmarka áhrif þess á líf viðkomandi. Þannig getur einstaklingur með hljóðóbeit einbeitt sér meira að því sem honum finnst skemmtilegt og haft minni áhyggjur af því að heyra hljóð sem veldur honum vanlíðan.

ER HLJÓÐÓBEIT TEGUND KVÍÐARÖSKUNAR?

Hljóðóbeit en ekki talin ein tegund kvíðaröskunar enda fyrirbærin frábrugðin hvort öðru. Hins vegar geta verið tengsl á milli hljóðóbeitar og kvíða og einstaklingar geta haft hvoru tveggja.

SENDA FYRIRSPURN

Athugið að ekki er um að ræða bókanir hjá háls-, nef- og eyrnalækni.