Eyrnasuð – tinnitus
HEYRIR ÞÚ HLJÓÐ SEM ENGINN ANNAR HEYRIR?
Ef svo er, þá ert þú ekki ein/n um það. Þú ert með líklega með eyrnasuð þ.e. heyrnar- og taugaeinkenni sem hrjáir milljónir einstaklinga um allan heim. Alþjóðlegt heiti eyrnasuðs er Tinnitus og er þetta heiti dregið af latneska orðinu að hringja eða klingja.
Skilgreiningin á eyrnasuði er “að skynja hljóð án þess að um sé að ræða nokkurt utanaðkomandi hljóðáreiti”. Þótt almennt sé talað um suð í eyrunum eða í höfðinu, þá er birtingarform eyrnasuðs mismunandi. Má þar nefna suð, hvin, blístur, þyt eða smelli. Í einstaka tilfellum skynjar einstaklingur eyrnasuðið sem tónlist. Eyrnasuð getur bæði verið tímabundið eða stöðugt ástand og er oft og tíðum verulega hamlandi fyrir viðkomandi. Um allan heim er eyrnasuð talið mikið heilsufarsvandamál.
Eyrnasuði er skipt í tvo flokka:
- Huglægt eyrnasuð: Hljóð í höfði eða eyrum sem enginn annar heyrir eða skynjar. Orsakir huglægs eyrnasuðs geta verið margar en í flestum tilfellum má rekja það til heyrnar- eða taugaviðbragða vegna heyrnarskaða. Yfir 99% alls eyrnasuðs telst huglægt.
- Hlutlægt eyrnasuð: Hljóð í höfði eða eyra sem aðrir geta einnig heyrt með þar til gerðum rannsóknaraðferðum. Þessi hljóð stafa oftast af innri æða- og vöðvastarfsemi líkamans. Hlutlægt eyrnasuð er mjög sjaldgæft, eða finnst aðeins í tæplega 1% tilfella.
ORSAKIR
Eyrnasuð er í sjálfu sér einkenni en ekki sjúkdómur og í flestum tilfellum orsakast eyrnasuð af viðbrögðum skyntauga heilans við heyrnaskaða. Þótt eyrnasuð sé oftast tengt heyrnarskaða þá eru um 200 mismunandi heilsufarsvandamál sem geta haft eyrnasuð sem fylgikvilla.
Einstaklingur sem upplifir eyrnasuð þarf að leita til læknis eða heyrnarfræðings til að fara í skoðun og mælingu til að greina undirliggjandi orsök. Í sumum tilfellum lagast eyrnasuðið þegar orsökin er meðhöndluð.
Hér á eftir eru listaðar nokkrar af algengustu orsökum eyrnasuðs:
- Aldurstengd heyrnarskerðing.
- Heyrnarskaði vegna hávaða.
- Hindrun í ytra eyra.
- Áverkar á höfði og hálsi.
- Vandamál tengd kjálkaliðum.
- Þrýstingur í ennisholum og skaðleg þrýstingsbreyting í umhverfi.
- Heilaskaði.
- Heyrnarskaðandi lyf.
Eyrnasuð getur einnig fylgt eftirfarandi sjúkdómum:
- Efnaskiptasjúkdómar: Skjaldkirtilssjúkdómar, blóðleysi.
- Sjálfsónæmi: Lyme sjúkdómur, vefjagigt.
- Æðasjúkdómar: Hár blóðþrýstingur, æðakölkun.
- Sálrænir kvillar: Þunglyndi, kvíði, streita.
- Heyrnar- og jafnvægissjúkdómar: Völundarsvimi, Brjóstgreindarops heilkenni, Ístaðshersli.
- Æxli (mjög sjaldgæft): Hjúpæxli á heyrnartaug ,annar æxlisvöxtur.
Þeir sem þjást af eyrnasuði eiga alls ekki að gera ráð fyrir því að þeir hafi nokkurn ofangreindra sjúkdóma.
Nokkur dæmi um þekkta fylgikvilla eyrnasuðs:
- Hljóðóþol er óeðlileg viðkvæmni fyrir hljóðum.
- Hljóðóbeit er viðkvæmni fyrir ákveðnum hljóðum og lýsir sér í óeðlilegum og neikvæðum tilfinningaviðbrögðum gagnvart þeim.
- Hljóðfælni lýsir sér í hræðslu við ákveðin hávær hljóð.
- Sálræn einkenni geta bæði orsakað eyrnasuð og verið afleiðing íþyngjandi eyrnasuðs.
HVERS VEGNA ER EYRNASUÐIÐ STÖÐUGT EN FER EKKI?
Hjá einstaklingum með langvarandi eyrnasuð hafa ein eða fleiri áðurnefndra orsaka leitt til heyrnartruflana. Tilraun heilans til að bæta upp fyrir þessa truflun getur verið upphafið á slæmri hringrás.
Hljóðbörkurinn er sá hluti heilans sem er ábyrgur fyrir heyrninni. Öll hljóðörvun sem eyrað nemur er greind og síðan send upp í hljóðbörkinn. Mismunandi svæði í hljóðberkinum greina mismunandi tíðnir, ekki ósvipað og uppröðun nótna er á lyklaborði píanós.
Óháð því hvaða orsakir liggja að baki eyrnasuðinu – hávaði, lyf, stress – þá valda þær allar að lokum truflun í boðflutningi frá eyranu upp í hljóðbörkinn. Þetta þýðir að sum tíðnisvæðanna í hljóðberkinum fá ekki lengur boð líkt og vissar nótur píanóssins virki ekki. Tíðnisvæðin í hljóðberkinum bregðast ekki við þessari breytingu með þögn. Þess í stað byrja taugafrumurnar að senda boð sín á milli og samstillast. Að þessari samstillingu lokinni, og við það að taugafrumurnar verða ofvirkar, búa þær til tón sem heilinn „heyrir“, þ.e. eyrnasuðið. Í myndlíkingunni við píanóið, þá hafa biluðu nóturnar búið til sinn eigin varanlega tón, jafnvel þó ekki sé slegið á nóturnar.
Með tímanum styrkist þetta mynstur og eyrnasuðið festist í sessi – heilinn hefur lært hljóðið.
HEILINN
Heilinn samanstendur af u.þ.b. 86 milljörðum taugafruma (svokölluðum taugungum); Hver taugafruma tengist nálægt 1.000 öðrum taugafrumum. Þannig myndast umfangsmikið net með fleiri milljörðum tengileiða sem flytja skilaboð og upplýsingar um heilann til að stjórna lífverunni. Eins og í tölvu mynda taugungarnir hringrásir (örrásir), þar sem mismunandi hringrásir hafa mismunandi verkefni. Til dæmis eru sumar hringrásir notaðar til að varðveita upplýsingar, á meðan aðrar eru ábyrgar fyrir úrvinnslu.
SAMSTILLT VIRKNI TAUGAFRUMNA
Í meginatriðum geta taugungar sem tilheyra sömu hringrásinni sent rafboð, bæði samstillt og ósamstillt. Til eru ákveðnir sjúkdómar þar sem ósamstilltar taugafrumur ákveðinnar hringrásar byrja skyndilega að senda boð samstillt: taugungarnir senda varanleg og óhófleg samstillt boð og byrja allir að senda boð samtímis. Það eru þessi óeðlilegu samstilltu boð sem geta valdið dæmigerðum einkennum eyrnasuðs.
HVERNIG HLJÓMAR EYRNASUÐ?
Við höfum sett saman dæmi um algengustu hljóðin sem einstaklingar með eyrnasuð upplifa á hverjum degi. Ef þú ert með eyrnasuð getur þú nýtt þér þessi dæmi til að finna það hljóð sem best samsvarar því hljóði sem þú heyrir. Þú getur einnig deilt því með lækni, heyrnarfræðingi, fjölskyldu og/eða vinum til að gefa þeim innsýn í þína upplifun.
Athugaðu: Vinsamlegast lækkaðu hljóðstyrk hátalara eða heyrnartóla áður en tóndæmin eru spiluð. Upptakan, rétt eins og eyrnasuðið, getur verið bæði hávær og truflandi.
- 4000 Hz tónn
- 7500 Hz tónn
- Afsakið hlé
- Bank / sláttur
- Blísturshljóð
- Borhljóð
- Brumandi tónn
- Flöktandi hljóð
- Flöktandi viðvörunarhljóð
- Gagnsuð með hátíðnitóni
- Gagnsuð
- Hátíðnitónn
- Rafrænn tónn
- Raftruflanir
- Skerandi tónn
- Söngtifur (Cicadas)
- Suðandi tónn
- Þokulúður
- Titrandi hljóð
- Vélarhljóð
- Viðvörunarhljóð
- Vindgnauð
TAKTU STJÓRNINA
Ef eyrnasuð hefur truflandi áhrif á þig í daglegu lífi skalti ekki bíða með að vinna í að ná stjórn á því og minnka truflun þess á líf þitt. Kynntu þér fyrirliggjandi meðferðarúræði og leitaðu leiða til að hemja eyrnasuðið.
Eyrnasuð getur skert lífsgæði verulega. Í boði eru góð og viðurkennd meðferðarúrræði sem geta mildað verulega áhrif þess á fólk. Með ástundun og stuðningi fagfólks geta þessi úrræði hjálpað, jafnvel þeim sem þjást af mjög alvarlegu eyrnasuði. Við mælum aðeins með sannreyndum meðferðarúrræðum.
HAGNÝT RÁÐ
Hér á eftir fylgja hagnýt ráð sem geta aðstoðað þig við að ná sem bestum árangri við að hemja eyrnasuðið. Þessi hagnýtu ráð eru almenn og gerð til að falla að breiðum hópi einstaklinga með eyrnasuð. Þó að þau gagnist flestum með eyrnasuð, þá er hvert einstakt tilfelli sérstakt og gæti þurft sértæk úrræði.
Þegar íþyngjandi eyrnasuðið herjar á þig er eftirfarandi mikilvægt:
- Haltu ró þinni.
- Talaðu við heimilislækni eða heilsugæslu.
- Finndu sérfræðing á sviði heyrnar og helst á sviði eyrnasuðs.
- Aflaðu þér upplýsinga um meðferðarúrræði.
- Ekki sætta þig við svarið „ ekkert hægt að gera“.
- Taktu ákvörðun og fylgdu henni eftir.
- Farðu vel með þig.