Fyrirlestrar og fræðsla
Hjá Heyrðu leggjum við áherslu á að bjóða upp á fjölbreytt úrval fyrirlestra tengdum heyrn og heyrnartengdum málefnum. Markmið okkar er að fræðslan sé hagnýt, lífleg og löguð að þörfum hlustenda.
Fræðsluna bjóðum við ýmist sem hluta af víðtækari þjónustu (t.d. í kjölfar vinnustaðamælinga, eða sem hluta af stefnumótun í heyrnarforvarnarstefnu fyrirtækja) eða sem afmarkað innlegg í almennt fræðslustarf á vinnustöðum eða hjá félagasamtökum.
Dæmi um fyrirlestra á vegum Heyrðu:
HEYRN OG HEYRNARSKERÐING
Fjallað er um eyrað, hljóð og ferðalag þess í gegnum heyrnarkerfið, heyrnarskerðingu, orsakir hennar og margvíslegar afleiðingar og síðast en ekki síst hvað sé til ráða.
ÁHRIF HÁVAÐA Á HEYRN
Á hverjum degi erum við í talsverðum hávaða, til dæmis í umferð, í líkamsrækt, í bíó, við íþróttaiðkun, á kaffihúsum eða í vinnu. Samkvæmt Evrópusambandinu dregur hávaði úr heilsu og lífsgæðum 25 prósent íbúa Evrópu. Í þessum fyrirlestri er fjallað um hvernig mismunandi hávaði hefur áhrif á okkur og hvernig hægt er að forðast þessi neikvæðu áhrif.
AÐ HEYRA EÐA HLUSTA
Við verjum um það bil 60 prósentum af samskiptatíma okkar í að hlusta, en við erum ekki mjög góð í því. Við höldum eftir aðeins 25 prósentum af því sem við heyrum. Í þessum fyrirlestri er fjallað um hvernig heyrnarkerfið vinnur úr hljóðupplýsingum og bent á góðar æfingar til að auka gæði virkrar hlustunar.
HEYRNARFORVARNIR
Við lifum í samfélagi þar sem hávaði er hluti af okkar daglega lífi. Þar sem eyrun eru viðkvæm líffæri er mikilvægt að vernda þau. Fjallað er um viðbrögð heyrnarkerfisins við hávaða og bent á hagnýtar leiðir til að verja heyrnina. Í þessum fyrirlestri er farið yfir mismunandi gerðir heyrnarvarna og mikilvægi þess að vanda valið þegar kemur að þeim.
HEYRNARSKERÐING AF VÖLDUM TÓNLISTAR
Meðal tónlistarmanna og aðila innan tónlistariðnarins hefur vitund um hættuna á heyrnarskerðingu af völdum of mikils hávaða aukist. Því miður skortir þó enn á að tónlistarmenn og aðrir innan greinarinnar verndi heyrn sína nægilega. Þessi fyrirlestur er sérstaklega sniðinn að þörfum tónlistarfólks. Farið er yfir áhættuþætti hjá mismunandi hljóðfærahópum og hvaða varnir eru bestar fyrir hvern hóp.