Almenn heyrnarþjónusta
Almenn heyrnarþjónusta samanstendur af röð þátta og mælinga. Byrjað er á að skrá sjúkrasögu skjólstæðings og að því loknu eru eyrun skoðuð og þau hreinsuð ef þörf krefur. Í þessari skoðun er hægt að sjá hvort einhver vandamál séu til staðar sem tengjast hlust eða hljóðhimnu. Í framhaldi af því er heyrnin prófuð.
Hefðbundnar mælingar sem oftast eru gerðar:
- Loftleiðnimæling
- Mæling á getu viðkomandi að heyra hreina tóna. Niðurstöður prófsins sýna lægsta hljóðstyrk sem viðkomandi heyrir á mismunandi tíðnum eða svo kölluð heyrnarmörk viðkomandi.
- Beinleiðnimæling
- Í vissum tilfellum eru heyrnarmörk einnig mæld með því að koma fyrir beinleiðara/titrara fyrir aftan eyrað. Beinleiðnimælingin sýnir hvort um er að ræða vandamál/hindrun á leiðni hljóðsins um miðeyrað.
- Talgreiningarpróf
- Prófið kannar getu viðkomandi til að greina tal og hvort að einhverjar heyrnartruflanir séu til staðar sem tengjast talskilningi.
- Þrýstimælingar
- Mæling sem metur ástand miðeyrans og hreyfanleika hljóðhimnunnar.
Í vissum tilfellum er gripið til sérmælinga.
Niðurstöður mælinga eru skráðar á heyrnarpróf/heyrnarrit, sem sýnir hvort heyrnarskerðing sé til staðar og hversu alvarleg hún er. Farið er yfir niðurstöður mismunandi mælinga, þær útskýrðar og ráðgjöf veitt um næstu skref.